Viðtal Guðmundar Odds við Kristínu í tilefni sýningarinnar Tveir heimar

Kristín Þorkelsdóttir

Guðmundur Oddur Magnússon


Hvað varð til þess að hugur þinn hneigðist til myndlistar?

Teikningin átti hug minn allan. Allir innileikir snerust um að búa eitthvað til, smíða, teikna. Hann Jón, teiknikennarinn minn í barnaskóla, „kenndi“ mér á þennan veg. Hann lyfti upp blaðinu mínu, sýndi bekknum og sagði: „Sjáiði krakkar!“ Ég held að þetta hafi bjargað sjálfsáliti mínu í barnaskóla. Í sjö ára bekk í vorskóla hjá Valgerði Briem sagði ég henni og krökkunum í bekknum að ég ætlaði að verða listmálari þegar ég yrði stór. Hins vegar var ég látin læra á píanó í sjö vetur.

Ég gerði það bara fyrir mömmu af misskilinni þægð en nennti því alls ekki. Fékk að fara á kvöldnámskeið í Handíðaskólanum hjá Jóhannesi Jóhannessyni þegar ég var 11 og 12 ára, en var 15 ára þegar ég fór í Handíðaskólann. Ég fór beint úr landsprófi, beið bara eftir að komast þarna inn.

Var það eðlilegt að svona ungt fólk kæmist þarna að?

Ég fékk undanþágu. Ég talaði við Lúðvík skólastjóra. Hann reyndi að seinka mér, en einhvern veginn tókst mér að tala hann til þótt ung væri.

Þú hefur haft manndóm í þér til þess að tala við hann sjálf?

Ég hafði það. Ég held að ég hafi verið bæði feimin og djörf, sennilega á sama hátt og ég er enn í dag.

Skólafélagar þínir í MHÍ hafa þá verið eldri en tvítugir?

Flestir en ekki allir. Hafsteinn Austmann var tveimur árum eldri en ég. Svo var þarna Helga Sveinbjörnsdóttir, tæplega tvítug, hún fór til Svíþjóðar í grafískt hönnunarnám og var auglýsingateiknari hjá Sambandinu. Magnús Pálsson var einn af eldri nemendunum, var einn vetur samtímis mér. Hann var í kennaradeildinni en vann meðfram við leikmyndateiknun.

Hvernig var þetta? Fannstu fyrir þessum aldursmun?

Nei, ég var það góður nemandi að ég var ekki látin gjalda þess. Ég átti bókstaflega heima þarna, vann í skólanum allan daginn frá átta á morgnana til ellefu á kvöldin. Ég hafði kannski ekki félagsþroska á við hitt fólkið en vissi bara ekki af því.

Kennarar?

Þeir kennarar sem höfðu mest áhrif á vinnu mína voru Sverrir Haraldsson og Sigurður Sigurðsson. Svo voru þarna fínir kennarar eins og Ásmundur Sveinsson, Tove Ólafsson, Björn Th. Björnsson og Valgerður Briem. Sigurður byrjaði á því að rífa mann niður þegar maður fór að teikna svona fínt. Hann vildi að maður teiknaði miklu grófara. Losaði um gamla vana og byggði mann upp aftur. Það var teiknað eftir gifsstyttum og lifandi módeli. Svo fékk maður að mála með olíulitum, aðallega kyrralífsmyndir og svo „út um gluggann myndir“. Harðbannað að nota vatnsliti (akvarellu). Skólinn var á Grundarstíg þegar þetta var og útsýnið fínt.

Sverrir var ungur listamaður þarna og hátt skrifaður.

Hann var það og almennt viðurkenndur. Mér finnst með ólíkindum hvað Sverrir er týndur núna. Ég bara skil það ekki. Hann var þvílíkur áhrifavaldur á þessum tíma og fínn listamaður. Hörður Daníelsson, maðurinn minn, sagði: „Hann kenndi manni að sjá aftur, sjá eitthvað nýtt.“ Mér er það minnisstætt þegar ég var aðstoðarkennari hjá Sverri á kvöldnámskeiðum að hann benti á eldspýtnastokk á borði og lýsti hinni venjulegu flatneskju með því. Svo reisti hann stokkinn upp á hlið og því næst upp á endann. Þannig benti hann okkur á spennuna sem myndast við þessar tilfæringar. Já, hann kenndi manni að sjá upp á nýtt.

Hjá Sverri fórstu að mála konkret-myndir eða abstrakt-myndir en þó með mjúkum formum sem þú segir að séu bein áhrif frá honum.

Ég tel að hann hafi örvað mig til þess. Ég var góða stund að kveikja. Svo allt í einu náði ég tökum á þessu. En ég málaði líka fígúratíft. Sverrir fékkst við að gera bókakápur á þessum tíma og hann ýtti mér svolítið í hönnunaráttina. Hann teiknaði smjörumbúðir og skreytingar á mjólkurbíla. Eg held að Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt hafi komið því í kring.

Það var ekki komin deild í auglýsingateiknun á þessum tíma, eða hvað?

Lúðvík hafði mikinn áhuga á leturgerð og á síðasta árinu mínu í skólanum fékk hann Atla Má til þess að kenna okkur skrift á laugardögum. Ég hélt dagbók á þessum tíma og skrifaði einhver ósköp um hvað þetta væri asnalegt. Ég sem myndlistarmaður hefði ekkert með þetta að gera o.s.frv. En af því að ég var á undanþágu sökum aldurs, þurfti ég að sækja einkunnir til Lúðvíks þegar ég var orðin 21 árs gömul og tveggja barna móðir. Ég hafði tekið teiknikennaradeildina á síðasta árinu mínu þegar ég uppgötvaði að námið þar var eins og í myndlistadeildinni, að viðbættri sálfræði og kennsluæfingum. Ég hafði gleymt dagbókinni í skólanum og Lúðvík hirti hana og hafði gaman af.

Mér fannst fyndið síðar hvað ég var óánægð með að fá leturkennsluna sem gagnaðist mér svo vel þegar ég þurfti að fara að vinna fyrir mér.

Kurt Zier þekkti ég ekki en síðar þegar skólinn var kominn í Skipholtið spurði hann mig hvort ég vildi taka að mér kennslu í auglýsingateiknun. Ég treysti mér ekki til þess vegna þess að ég hafði ekki lært hana í skóla þótt ég væri komin út í slíka vinnu sjálf, en benti honum á Gísla B. og Torfa.

Var Hörður, maður þinn, með þér í þessari teiknivinnu frá upphafi?

Já, að vísu hafði ég verið í vinnu hjá Sveini Kjarval, sem bjó og var með teiknistofu í risi skólahússins. Fyrstu 12 árin okkar Harðar var hann í fullri vinnu við símvirkjun en var í raun alltaf við hlið mér. Við ræddum hlutina. Ég var kannski búin að vinna skissur þegar hann kom heim á kvöldin og pikkaði út það sem honum fannst vit í. Stundum vorum við ekki sammála. Ég varð oft reið og pirruð á hans vali en eftir svona klukkutíma sá ég oft að eitthvað var til í hans sjónarmiði. Við höfum alla tíð unnið náið saman. Það var helst eftir að við vorum komin með stóra stofu að hann hvarf í önnur verkefni. Hann sá t.d. um kvikmyndagerð stofunnar áður en litsjónvarpið kom til sögunnar. En stundum leystum við verkefnin í sameiningu. Núna vinnum við saman að þeim hönnunarverkum sem við tökum að okkur.

Hvað var Sveinn Kjarval að fást við þegar þú vannst hjá honum? Hann var hvað, húsgagnahönnuður?

Og innréttingahönnuður. Hann var m.a. að fást við Naustið. Innréttingarnar þar og húsgögnin. Hann kom að öllu sem varðaði útlit og anda staðarins. Leitaði t.d. uppi gömul skipsskilti og skipsheiti. Básarnir voru merktir með þeim. Svo bjuggum við til nokkur í viðbót og ég lenti í því. Ég gerði skilti sem hékk utan á húsinu. Sveinn gerði frumdrögin að forminu og ég sá um týpógrafíuna sem tók mið af rúnaletri.

Á lógóinu fyrir Naustið?

Nei, það gerði Halldór Pétursson. Mitt skilti var svona dinglandi tréskilti sem marraði í. Ég vann hjá Sveini á sumrin meðan ég var í skólanum og einnig eftir skólann. Í framhaldi af veru minni í textíldeild skólans vorum við Gísli Ásmundsson fengin til að gera innanhússskreytingu í Naustið. Mótífin sem við notuðum voru örsmá, unnin upp úr gömlum kortabókum. Sigurður Sigurðsson yfirkennari benti Sveini á mótífið sem möguleika í Naustið. Þeir voru ágætlega kunnugir, hann og Sveinn. Við gerðum fjórar myndir sem við máluðum á segl á endaveggina.

Hvað vannstu lengi hjá Sveini?

Ég var sumarið ´54 og ´55 og svo eitt ár eftir það og hætti um mitt sumar 1956.

Manstu eftir fleiri verkefnum hjá Sveini?

Ég var nú aðallega að skrifa skýringar á teikningar, teiknaði allmörg neonskilti og sá um litaval hjá góðborgurum í Reykjavík.

Þannig að þetta hefur verið einhvers konar eldskírn inn í hönnunarheiminn? Þú vannst við letur, við málsetningar fyrir framleiðslu, litaval og fleira?

Já, það má segja það. Þegar hann var t.d. að velja lampa hafði hann mig með; fannst gott að tala við einhvern.

Unnu fleiri hjá Sveini á þessum tíma?

Húsgagnaarkitektar eins og Gunnar Guðmundsson, höfundur leðurstólsins góða, sem flestir kannast við, Halldór Hjálmarsson, Ernst Mikaelsen og fleiri að mig minnir. Þetta voru þeir sem ég kynntist en þeir voru ekki allir hjá Sveini samtímis. Ég var 19 ára þegar ég hætti hjá honum því þá eignaðist ég mitt fyrsta barn. Sveinn hélt þó áfram að vísa til mín verkefnum.

Hélstu áfram að búa til myndlist á þessum tíma?

Við Hörður vorum farin að byggja og okkur vantaði sárlega peninga. Og það var útilokað að selja það sem mig langaði til að mála, þ.e. abstrakt-málverk. Og mig langaði sannarlega ekki til að mála það sem ég vissi að ég gat selt. Ég áttaði mig á því að grafísk hönnun var bara rosalega spennandi. Ég gerðist áskrifandi að Graphis sem er gefið út í Sviss. Svo var keypt ein og ein bók en þær voru aldrei margar. Þessi nöfn og þessi verk sem þarna mátti sjá! Þvílíkur skóli! Maður sá hvað hægt var að gera fína hluti, skemmta sér við það og fá borgað í ofanálag. Mér hefur alltaf fundist nauðsynlegt að hafa gaman af vinnunni. Það er drifkrafturinn.

Hvar byrjuðuð þið með þennan rekstur?

Við áttum heima á Kleppsvegi 6 og byrjuðum þar í stofunni. Reyndar áttum við áður heima á Klapparstíg 26. Þá tók ég líka verkefni heim. Vann t.d. mikið fyrir fyrirtæki sem hét Húsbúnaður. Það var í gegnum Svein. Það var mjög skemmtilegt tímabil. Ég gerði flott merki fyrir þá. Ég flokka það undir Letraset-tímabilið. Þá lék maður sér að typografíu og uppsetningum sem ekki var gert á annan veg.

Var þetta harður bransi?

Það var ekki grimm samkeppni. Við vorum þó kynslóð sem mér finnst eftir á að hafi rutt hinum út. Atli Már og Ásgeir Júl. voru þá aðalmennirnir. Halldór Pétursson var auðvitað með sína hluti sem voru ekki beint í týpógrafíska geiranum. Jörundur Pálsson og Stefán Jónsson báðir farnir í arkitektúr. Svo komum við og Gísli B., Ástmar, Friðrika og Torfi og síðar strákarnir í Argusi; Hilmar og Þröstur.

Hvernig myndaðist kúnnahópurinn í byrjun? Í hvernig verkefnum varstu? Þú minntist á Svein Kjarval.

Já, hann vísaði til mín, t.d. Laugavegi 28 og Tröð. Hvort tveggja kaffihús. Svo bara gerðist eitthvað. Vinnan spurðist fljótt út. Ég fór að gera bíóauglýsingar. Svo í kringum 1960 … nei, fyrir ´60, fór ég að vinna fyrir Sameinuðu verksmiðjuafgreiðsluna – Sava. Magnús Víglundsson var með verksmiðjusamsteypu í sambandi við fatnað. Vörumiðar, merki og auglýsingar voru aðalverkefnin og svo var mikilvægt að sigra öðru hverju í merkjasamkeppni: Iðnsýningin 1966, Náttúruverndarráð 1968, og síðar 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Þannig kemst fólk í umræðuna. Vinnufatagerð Íslands var stór kúnni. Þar hittumst við Bjarni Grímsson markaðsmaður sem varð síðar félagi okkar Harðar um tíma. Bjarni var mjög skemmtilegur kúnni. Það skiptir miklu að hafa kúnna sem bæði kann að meta það sem fyrir hann er gert, örvar mann þegar þarf og hefur eitthvað til málanna að leggja sem markaðsmaður.

Getur þú lýst vinnuumhverfi teiknara á þessu tímabili á milli 1956 og 1960?

Þegar maður var til dæmis að gera bókarkápu, þá las maður bókina til að kynnast efninu. Svo gerði ég skissur, oft litlar þumalskissur með blýanti eða lit, olíukrít, tússi eða þekjulit. Hvað útfærsluna varðaði, þá áttum við prentuð stafróf í nokkrum stærðum, sem voru klippt og límd eftir þörfum. Prentsmiðja Þjóðviljans átti t.d. gott Futura-safn. Ég keypti líka leturbækur og fyrir kom að ég teiknaði letur, t.d. á smjörumbúðirnar sem enn eru í gangi. Svo kom Letraset inn í þetta. Ég gæti best trúað því að það hafi gerst í kringum 1960. Við keyptum okkur Repromaster seinna, en létum stækka og minnka í klisjugerðinni hjá Eymundi í Litrófi. Maður fór þangað kannski með grunninn að hreinteikningunni í bútum og bað um kópíu í tiltekinni stærð og var þá búinn að merkja hvar kópían ætti að koma inn. En oftast fékk maður minnkaðar kópíur og límdi inn sjálfur, gekk frá því og skilaði til myndatöku. Svo líklega eftir 1966 fann ég Optiset-maskínu og keypti með Friðriku Geirsdóttur. Optiset-vélin var með útfjólubláu ljósi og tvöföldum límborða og letri á filmum; við áttum mikið og gott leturúrval og við teiknuðum rétta íslenska stafi inn í stafrófin. Maður raðaði stöfunum upp með millibilum eftir tilfinningu og slapp við límstússið. Síðan var tekin kópía á ljósnæman pappír sem var á rúllu og þá var kominn fínn leturfrágangur. Við nýttum Optiset-vélina á stofunni í fyrirsagnir alveg að tölvubyltingunni og jafnvel lengur.

Hvað voruð þið lengi á Kleppsveginum?

Í fimm ár. Við fluttum hingað í Kópavoginn 1963. Almenna bókafélagið bættist svo við kúnnahópinn. Fyrstu bókarkápuna gerði ég 1965. Það var Mannþing eftir Indriða G. Þorsteinsson.

Þú sagðir að kynni þín af grafískri hönnun hefðu farið fram fyrir milligöngu tímaritsins Graphis og nokkurra bóka ...?

Já, og Citroen-bæklingarnir voru ótrúlega flottir. Sænska Femina var fínt grafískt blað. Það hafði áhrif og ég lærði að bjarga mér á sænsku við lestur á því blaði.

Hvenær fórstu að ráða til þín aðstoðarfólk?

Friðrika var fyrst. Ætli það hafi ekki verið í kringum 1967. Við höfðum starfað saman við Iðnsýninguna ´66. Þá vorum við hérna í kjallaranum með vinnustofuna. Svo komu Magnús Pálsson og Þorbjörg Höskuldsdóttir til aðstoðar við Landbúnaðarsýninguna 1968.

Varstu á sama tíma að vinna að frjálsri myndlist?

Ekki beint en myndlistin kom svolítið inn í sambandi við bókakápurnar. Maður hætti nú ekki alveg að teikna. Ég teiknaði oft undir útvarpinu en það var svo sem enginn tími til þess að gera annað en það sem flokka má undir fikt; til að halda fingrunum liðugum.

Hvað lá til grundvallar þegar þú valdir þér samstarfsfólk?

Númer eitt var að vera hrifin af því sem viðkomandi gat og kunni, plús það að ég varð að hafa trú á að gott væri að vinna með viðkomandi persónu. Mér fannst líka nauðsynlegt að vera á svipaðri bylgjulengd hvað smekk varðaði.

Þetta var á tíma hippakynslóðarinnar sem endurmat margt, gerði m.a. upp gömul hús. Fannstu fyrir þessu? Var þetta bylgjulengdin ykkar?

Ég hugsa það nú. Til dæmis þegar Bernhöftstorfuslagurinn var í gangi komum við fram með tillögu um að búa til myndaseríu í dagblöðin um hús dagsins. Kveikjan var e.t.v. fugl dagsins í útvarpinu. Fyrst voru valin hús. Mig minnir að Leifur Þorsteinsson hafi tekið ljósmyndir af gömlum og merkum húsum. Svo fengum við Jökul Jakobsson til þess að skrifa um húsin. Dagblöðin birtu efnið frítt enda mjög fallegt efni. Guðrún Jónsdóttir arkitekt var formaður Bernhöftstorfusamtakanna. Þetta var sameiginleg hugsjón margra af þessarari kynslóð.

Manstu eftir fleiri verkefnum sem þú tókst að þér sem voru byggð á svona hugsjónagrunni?

Já, ég get sýnt þér eina bókarkápu. Þessi bók hafði alveg rosaleg áhrif á okkur. Hún er eftir Rachel Carson og heitir Raddir vorsins þagna. Ég hafði þann sið að lesa fyrst handrit áður en ég hannaði kápuna og við lestur þessarar bókar áttaði maður sig á skordýraeitrinu – hvað var að gerast hér í kringum okkur. Þessi bók kom út 1965 og yngsti sonur okkar fæddist 1969. Við áttum heima hér í Lindarhvamminum, í litlu húsi á stórri lóð, og það var verið að eitra í hverjum einasta garði og maður áttaði sig á því að raunverulegt sumar er í mesta lagi sex vikur á Íslandi. Barnið fæðist að sumri og allt í einu gerir maður sér ljóst að svona á þetta ekki að vera, það á ekki að ala börn upp í menguðu umhverfi. Þetta ár tókum við þá ákvörðun að hætta að eitra. Á þessum tíma hlustaði enginn á þetta og það var eitrað áfram hér allt í kring. Svo fengum við alveg upp í kok. Við vorum með grænmeti og krydd hér í garðshorni. Eitt sumarið fengum við skordýraeitur fjórum sinnum yfir grænmetið okkar. Við ákváðum að skrifa bænum og biðja þá að endurskoða úðunarmálin hjá sér og buðum fram aðstoð okkar við gerð fræðsluefnis. Erindi okkar var vel tekið og við lögðumst í heilmikla vinnu með umhverfisnefnd bæjarins og unnum með henni einn vetur að þessu. Og buðumst til þess að hanna bækling um þetta. Þeir höfðu samband við hin bæjarsamfélögin hér í kring. Jón Gunnar Ottósson skordýrafræðingur, sem hafði pælt mikið í eiturnotkuninni hér á landi, var mjög ánægður með þetta framtak og skrifaði textann í bæklinginn. Við flokkuðum tré í A-, B-, C-, D-, og E-flokka. „Eiturlyfjasjúklingar“ voru í E-flokki. Brekkuvíðir hvarf nánast, því það var ekki nokkur leið að vera með það tré án þess að eitra fyrir skordýrum. Bæklingnum var ætlað það hlutverk að benda fólki á leiðir. Besta leiðin er að vera með tré sem þurfa ekki þessa vörn. Þetta er kannski það helsta sem ég man eftir í svona sjálfboðavinnu. Það getur vel verið að það hafi verið eitthvað fleira.

Jú, þegar Vigdís stóð í kosningabaráttunni í fyrsta sinn stóðumst við ekki mátið.

Einhverjir af þínum samstarfsmönnum voru útlendingar?

Það var nú aðallega einn, Englendingurinn Steve Fairbairn. Hann vann hjá okkur frá 1970. Hann er giftur íslenskri myndlistarkonu. Hann vann mjög mikið með mér og hreinteiknaði margt sem ég gerði og vann jafnframt að öðrum verkefnum.

Hvenær voru umsvif þín í þessum bransa mest?

Þetta fór smávaxandi. Aukningin hófst í kjallaranum hérna í Lindarhvamminum en svo fluttum við stofuna yfir götuna. Ætli við höfum ekki verið sex til átta þar. Næst fluttum við upp í Hamraborg þar sem stofan fór ört stækkandi, svona 12–14 manns um 1974. Þaðan fluttum við í BYKO-húsið og síðan í Skipholt. Þegar við vorum sem stærst þar um 1988 vorum við um 30. Okkar stærstu kúnnar þá voru Osta- og smjörsalan, Mjólkursamsalan, BYKO, Toyota og Flugleiðir. Þeim síðastnefndu höfðum við neitað áður og það höfðu þeir víst aldrei upplifað. Ástæðan var einfaldlega sú að við vorum með svo fína kúnna og höfðum ekkert svigrúm til að fjölga hjá okkur fyrr en við komum í Skipholtið. En þegar við vorum orðin svona mörg þá hætti mér að líða vel í þessu fagi. Það var ósköp einfalt. Ég gat ekki lengur unnið með höndunum nema einstaka verkefni og mér leið bara eins og ég væri móðir í alltof stórri fjölskyldu.

En á þessum tíma fékkstu mörg verkefni sem munu halda nafni þínu lengi á lofti, t.d. hönnun á íslensku peningaseðlunum.

Ég vann að þeirri hönnun af ástríðu og fékk svo Steve Fairbairn til liðs við mig á stofunni við útfærslur. Seðlarnir segja menningarsögu Íslands, að vísu aðeins brotakennda kafla, en frásögnin er öll á myndmáli. Við gerðum ráð fyrir seðlaröð frá tíu krónum og upp í tíu þúsund. Við gjaldmiðilsbreytinguna 1981 voru gefnir út fjórir seðlar, 10, 50, 100, og 500 krónur.

Með því verkefni hófst skemmtileg rannsóknarvinna, þar sem þú skoðar myndrænan þjóðararf.

Já, ég var búin að átta mig á möguleikunum. Þegar ég var í Handíðaskólanum var iðulega farið með okkur upp á Þjóðminjasafn, þannig að ég vissi af gersemunum þar. En það kom fleira til. Eitt af lykilatriðum varðandi peningaseðlahönnun er andlitsmynd (portrett). Víðast hvar hafa portrett af valdhöfum eða þjóðhetjum viðkomandi ríkis verið á seðlum, mynt og frímerkjum. Þó geta önnur sjónarmið ráðið. Þegar ég var að móta seðlana hvað persónur og myndefni varðaði ákvað ég að kanna hvað væri til í Þjóðminjasafninu af andlitsmyndum af persónum sem höfðu haft þýðingu í þjóðarsögunni með tilvist sinni og gjörðum, gjarnan þó á annan hátt en áður hafði verið hampað. Og hvaða efni væri til þar, sem tengdist þeim, a.m.k. í tíma. Ég lagði fram skriflegar tillögur að tveimur meginhugmyndum 1977, sennilega í árslok. Fyrir var seðlaröð sem fjallaði um aðalatvinnuvegi Íslendinga. Önnur tillaga mín tengdist náttúrufræði, hin menningararfi og lærdómsmönnum. Menningararfurinn varð fyrir valinu. Ég var mjög ánægð með það og við Steve fórum að vinna að myndrænum tillögum 1978–79 eftir að hafa kynnt okkur tæknihliðina hjá Bradbury Wilkinson, seðlaprentsmiðjunni í Bretlandi. Stefán Þórarinsson, rekstrarstjóri Seðlabankans, var tengiliður bankastjóranna við mig, frábær maður með djúpan skilning á hönnun. Bankastjórarnir, með Jóhannes Nordal í fararbroddi, sýndu hugmyndinni áhuga og ég fékk frjálsar hendur með hugmynda- og tillöguvinnu. Þá datt mér í hug að reyna að finna hluti sem voru tengdir persónunum beint. Hver einasti seðill verður minnisvarði um tiltekið efni. Ef við tökum fimmtíukallinn sem dæmi, verður hann minnisvarði um prentlistina. Það eru til fleiri en eitt málverk af Guðbrandi Þorlákssyni. Við notum Guðbrandsbiblíu sem grunn í allt sem á seðlinum er. Það var líka mjög gaman að gera hundraðkallinn. Þar er Árni Magnússon, sem bjargar handritunum þó að þau brenni eiginlega úr höndunum á honum. Annars vegar Árni, sem er þá grunnurinn hvað portrettið snertir og hins vegar þeir sem skrifuðu og hönnuðu sjálf handritin, sem eru á bakhliðinni. Þar komu upp vafaatriði hvað varðaði útlit húsgagna og bóka. Ég gætti mín á að bera allt sem máli skipti undir okkur fróðari menn. Til dæmis fengum við Björn Th. til að fara yfir bakhliðina. Steve var búinn að teikna munk við skriftir. Þá ákvað ég að bera myndina undir Björn til þess að lenda ekki í stílvillum. Hann benti okkur á að húsgögnin væru að minnsta kosti tveim öldum yngri heldur en það sem var í notkun á tímum skrifara handritanna. Ég leitaði til handritastofnunar varðandi útlit bóka sem lágu í skápnum og fékk ábendingar um útlit kjalanna. Þetta leiðréttum við allt. Ég er þakklát forsjóninni fyrir að hafa gefið mér vit til þess að haga mér þannig. Mér leiðist mjög þegar ég er staðin að klaufavillum.

En þarna komstu líka að meginþáttum hönnunararfs okkar, prentlistinni og handritagerðinni ásamt húsbúnaði og hlutum.

Já, og þú getur haldið áfram í þúsundkallinum. Mitt viðhorf er að hann sé minnismerki um húsagerðarlistina. Þar nýttum við okkur rannsóknir Harðar Ágústssonar. Hann var búinn að teikna upp langskurð af Skálholtskirkju sem hann gerði eftir annálaúttektum, að ég held. Við byggðum teikninguna af Skálholtskirkju á rannsóknum hans og gömlum myndum, en sýndum kirkjuna frá öðru sjónarhorni en áður hafði sést. Steve var svo finkur í perspektívteikningu að hann gat flogið í kringum hús ef hann hafði málsetningar. Þetta geta teikniforrit gert í dag en þá var slíku ekki til að dreifa. Allt sem er á þeim seðli er tímatengt við Brynjólf. Meira að segja er letrið framan á seðlinum sama leturgerð og er á skírnarfontinum úr Brynjólfskirkju, en hann er á Þjóðminjasafninu. Brynjólfur sjálfur var erfiður að því leytinu að ekki var til mynd af honum. Ég stakk upp á tveimur möguleikum við Seðlabankann, annars vegar að sýna Brynjólf sem sílúettu, eins konar skuggamynd að baki portrettmyndarinnar sem yrði af Þórði Þorlákssyni vísibiskupi, sem var samtíða Brynjólfi í Skálholti síðustu sex æviár Brynjólfs. Eða þá hitt að freista þess að búa til reffilegt portrett af Brynjólfi og vitna í samtímalýsingar af Brynjólfi og fyrirmæli hans til presta um klæðnað og hárskurð. Þetta varð að ráði og endaði með því að ég fór að leita að Brynjólfi. Ég teiknaði hann upp samkvæmt skriflegum lýsingum á útliti hans og studdist við stöðu manns á prímitívri mynd sem dr. Jón Þorkelsson taldi að gæti verið af honum. Ég leitaði að skeggjuðum mönnum og bað Guðmund Ingólfsson ljósmyndara að sitja fyrir. Við þekktumst vel en hann var með sítt skegg á þessum tíma. Ég lét búa til hárkollu með hársídd rétt niður fyrir eyru. Ég aflaði mér upplýsinga um klæðnað biskupa. Mig minnir að Þjóðleikhúsið hafi skaffað okkur búninga í þetta. Svo var Guðmundur í þetta skiptið hinum megin við myndavélina. Ég byrjaði á að ljósmynda hann í alls konar stellingum og gerði síðan blýantsteikningar. Til þess að þetta yrði nú ekki allt of líkt Guðmundi breytti ég svip hans og notaði munnsvip og augnbúnað frá öðrum mér kunnugum. En ég gerði myndina eins og andinn blés mér í brjóst og mér fannst Brynjólfur vera. Að þessu loknu sendi ég lokateikningu út til seðlaprentsmiðjunnar. Þetta var fyrir tíma tölvuhönnunar og lokakúnnaskissan var gerð þannig að prentsmiðjan klippti saman afþrykk af grunnmunstrunum sem við vorum búin að hanna og vatnslitaði einstaka atriði, þar á meðal portrettið, inn á þessa örlitlu en nákvæmu skissu. Svo var þetta sent hingað til lokasamþykktar áður en farið var að grafa portrettið í stál. Þá lenti ég í því að fá svip á Brynjólf sem ég vildi ekki sjá. Hann var orðinn að ströngum ofsatrúarmanni, sem mér finnst alls ekki passa við Brynjólf. Ég þurfti sem sé að eyða talsverðri orku í að ná honum til baka eins og ég vildi hafa hann. Og það tókst. Ég á myndir sem sýna þessi stig. Við tókum ljósmyndir af þessu ferli.

Þessar grunnhugmyndir, prentlistin, handritin og byggingarlistin eru frá þér komnar?

Já, þær eru það en við gerð síðasta seðilsins, tvö þúsund króna seðilsins, kom fram ákveðin ósk frá bankanum um að helga hann myndlistinni.

En fimm þúsund króna seðillinn? Þar er Ragnheiður Jónsdóttir, biskupsfrú og hannyrðafrömuður, á Hólum.

Já, þar er Ragnheiður. Ég lít svo á að hann sé minnisvarði um nytjalist og kennslu. Þegar hugmyndin að Ragnheiði kom upp var kvennafrídagurinn nýafstaðinn og kona orðin forseti okkar. Á þessum tíma var kominn dálítill þrýstingur á að minna á tilvist kvenna og að draga fram mikilvægi hlutverks þeirra almennt. Þetta var lagt fyrir mig í bankanum og ég beðin að hugsa málið út frá því hvað hægt væri að gera innan sömu þemahugsunar. Ég fór upp í Þjóðminjasafn að leita. Spurði hvaða myndir af konum væru til. Ég man ekki lengur hvað kom til álita á þessum tíma. Þá benti Elsa Guðjónsson mér á Ragnheiði og hvað mikið væri til af efni á safninu tengt henni. Mér fannst þetta afar áhugavert efni og flísfalla að heildarhugsuninni. Þá vorum við komin með mikla reynslu og kunnum í raun miklu meira en þegar fyrstu fjórir seðlarnir voru hannaðir. Enda er fimm þúsund króna seðillinn „alger veisla“ að mínu mati. Í sambandi við Seðlabankann og seðlahönnunina: Okkur var treyst, við fundum það og tókum sem áskorun; lögðum allt í verkið.

Getur þú talið upp myndmálið sem býr í seðlinum?

Það er til stórt barokkmálverk á Þjóðminjasafninu sem er grunnurinn að mannamyndunum. Ragnheiður hafði gert, eða látið gera, litlar andlitsmyndir af sér og þeim einstaklingum sem á málverkinu eru: Gísla Þorlákssyni biskupi ásamt tveimur fyrri konum hans, Gróu Þorleifsdóttur og Ingibjörgu Benediktsdóttur og sent út sem heimildir fyrir þessa stóru mynd. Svo notuðum við stólinn hennar og sjónabók. Altarisklæðið, sem er talið hennar verk, er grunnurinn að mynstrum og borðum seðilsins.

Munstrið á bakhliðinni?

Altarisklæðið er úr Laufáskirkju, það er á framhliðinni líka. Fangamarkið RI á bakhlið seðilsins er hennar, I stendur fyrir J. Fangamarkið fundum við í sjónabókinni en uppruni hennar gæti verið enskur. Við létum gera búninga fyrir ljósmyndun. Þetta er sams konar fatnaður og hún er í á málverkinu. Þetta var allt endurgert. Stóllinn líka, en án útskurðar. Altarisklæðið var talið út og við létum silkiprenta það til nota við myndatöku. Við hefðum ekki getað fengið það lánað enda viðkvæmt og slitið. Við unnum svona. Sjáðu sjöskipta-letrið á framhliðinni. Þú getur talið hér sjö útsaumseiningar. Þetta er sama kerfi og fyrstu tölvuletrin byggðust á. Mér hefur alltaf fundist þetta skemmtileg mæting tímabila.

Þessi seðill kom út 1986 en sá síðasti, tvöþúsundkallinn með Kjarval, ekki fyrr en 1995. Þannig að þú varst eiginlega að vinna í þessu frá 1977 til 1995?

Já, þó með löngum hléum. Og síðan 2001 til 2005 af og til, við að breyta fimm þúsund, eitt þúsund og fimm hundruð króna seðlunum, til þess að koma fleiri öryggisatriðum að, án þess að hönnunin bíði hnekki. Það er stór hætta á slíku við breytingar ef gengið er fram hjá hönnuði.

Hvenær seldir þú svo stofuna?

Við Hörður áttum stofuna saman og losuðum okkur við hana 1994.

Hönnun seðlanna hlýtur að teljast toppurinn á þínum ferli?

Það er flóknasta verkefnið en ég tel að mörg merkjanna sem við gerðum séu fín verk.

Kápurnar sem þú gerðir á ljóðabækur AB á sjöunda áratugnum eru það líka, segðu aðeins frá þeim.

Það áttu að koma út þrjár ljóðabækur samtímis fyrsta árið og von var á fleirum síðar. Verkefnið bauð því upp á öðruvísi nálgun; eins konar syrpuhugsun. Við Hörður unnum kápurnar saman og máttum bara nota tvo liti. Klisjugerð var dýr. Við ákváðum að skipuleggja þetta þannig að textinn á kápurnar yrði blýsettur og einungis gerð ein klisja sem yrði snúið þegar seinni liturinn væri þrykktur. Við samþrykk klisjanna myndaðist þriðji liturinn. Svo var næsta bók prentuð og sama aðferð notuð með nýjum titlum og nýjum litum. Litasamsetning hverrar kápu tók mið af anda bókarinnar og jafnvel einstaka ljóði. Á næsta ári notuðum við sömu klisju en breyttum svolítið snúningnum á klisjunni í samþrykkinu. Við það mynduðust öðruvísi optísk áhrif í mynstrinu. Þetta héldum við áfram með í nýjum tilbrigðum eftir því sem bókunum fjölgaði.

Gerðuð þið tilraunir?

Já, við unnum mikið með „color-key“. Það var aðferð til að gera prufur að fjögurra lita myndum með örþunnum filmum fyrir hvern lit. Ég gat notað útfjólubláu Optiset-vélina til þess. Maður gat líka búið til mattan hvítan color-key sem hægt var að lita með bómullarhnoðra. Ef hringmynstrið var orðið hvítt, þá var grunnurinn glær. Þá prófaði maður sig áfram með liti og var ekki bundinn af fjögurra lita kerfinu. Þannig gátum við gert litablöndunartilraunir í smáu formi. Svo var farið í prentsmiðjuna og litirnir blandaðir með prenturunum. Mig minnir að á þessum tíma hafi Pantone-kerfið ekki verið komið hingað. Í sambandi við bókakápugerð fór ég alltaf í prentsmiðjurnar, tók út litina og skipti mér af blöndun þeirra. Ég er skrifuð fyrir þessum ljóðabókum en þetta er sameiginlegt verkefni okkar Harðar.

Eru fleiri verkefni sem þið unnuð náið saman að?

Þau eru mörg. Aðallega á þann hátt að við ræðum hugmyndir, ég forma þær, hann útfærir síðan með nákvæmni sem hann er frægur fyrir. Það kom líka fyrir að hann gerði myndskreytingar í gamla daga; skip, bíla, báta. Málsetningin hans var með ólíkindum – hann gaf upp mál í brotum úr millimetra. Það var og er aldrei neitt hipsum-haps hjá Herði.

Var það til þess að standa á tæknimönnum?

Það var ekki gert með því hugarfari. Við vildum fá hlutina nákvæma. Ég hef nú alltaf reynt að fara þannig að mönnum í prentbransanum að hafa þá með – vinna með þeim. Fá þeirra innlegg fram þannig að þeir skynji að maður viti hvað maður vill fá fram og að þeir leggi sitt í púkkið til að ná því marki.

Þannig að ykkar metnaður verði þeirra metnaður?

Já, það skiptir miklu máli. Ég hef orðið vitni að samskiptum milli teiknara og prentara þar sem allt hefur farið á suðupunkt af því að menn hafa ekki borið virðingu hverjir fyrir öðrum og tel það með því mikilvægara sem maður lærir. Þetta hafði ég upp úr sálfræðitímunum hjá Brodda Jóhannessyni í teiknikennaranáminu.

Aðdragandinn að því að þú tókst til við myndlistina aftur. Gerðist það þarna fyrir tíu árum þegar þú seldir stofuna eða fyrr?

Það gerðist 1984 eða fyrir tæpum 22 árum.

Þegar umsvif AUK voru hvað mest?

Ég var að drukkna andlega. Það var hætt að vera gaman í vinnunni. Fyrir tilviljun tók ég upp penslana. Við höfðum lengi vel gaman af því að veiða silung með strákunum okkar. Það var nú aldrei stórtæk veiði. Farið á Þingvöll í þjóðgarðinn. Ég var búin að missa veiðidelluna þegar þetta var. Ég sat bara á þúfu með teikniblokk í póstkortastærð og reyndi að ná í skottið á sjálfri mér. Til að drepa tímann og reyna að skemmta mér. Ég var í þessu um sumarið af og til í sjálfshjálparskini. Þá vildi svo til að Edda Jónsdóttir frétti af þessu hjá Sigríði Bragadóttur vinkonu minni. Þá var Edda aðili að Gallerí Langbrók. Hún stakk upp á því að ég sýndi hjá þeim og það varð úr vorið 1985. Stillur kallaði ég sýninguna. Róandi réttnefni. Og það varð ekkert aftur snúið. Ég var orðin ástfangin af vatnslitnum. Við lögðumst út hjónin í sumarleyfum okkar. Hörður með ljósmyndavél og ég með vatnslitinn. Það var svo skrýtið að þótt ég málaði í fyrstu bara í sumarleyfinu var hausinn á fullu að vinna í vatnslitnum allt árið. Ég horfði á umhverfið með augum málarans, horfði á skýin, litgreindi og málaði ósjálfrátt í huganum. Það gerði mér gott.

En hvers vegna vatnslitur, getur þú útskýrt það betur?

Já, ég get það. Þegar maður ferðast staldrar maður stutt við og er alltaf að færa sig milli staða. Vatnsliturinn fer vel í farangri þess sem leitar innblásturs í náttúrunni. Hann svarar spontant, er gjöfull og blæbrigðaríkur. Ég tel að vatnsliturinn hafi orðið ofan á hjá mér af því að hann hentar mínum lífsmáta og ögrar mér. Hann er jafnvel enn duttlungafyllri en ég sjálf og er til í allt.

Nú hefur vatnsliturinn eiginleika sem varðar birtuspil – hann hefur þetta gagnsæja eðli. Hvort sem það er út af breskri hefð og Turner þá snýst þetta um ljósið.

Heldur betur. Að mála er fyrir mér að sjá. Sjá hvernig birtan teiknar allt upp eða felur og breytist og flöktir um. Ég mála úti við, í síbreytilegu ljóshafinu og þarf stöðugt að velja hverju ég geri skil og hvernig. Skuggar koma og skuggar hverfa. Hverri pensilstroku fylgir nýtt val. Við þetta ferli verður myndin meira lifandi en ella og náttúruupplifunin kemst í myndverkið til áhorfandans. Myndin er ekki af einu augnabliki heldur málunarferli og upplifun svo tímum skiptir.

Segðu mér eitt. Hlustaðir þú á spunatónlist eða djass á þínum unglingsárum? Það sem ég er að hugsa um er þessi spuni og þetta flæði sem einkenndi listir á sjötta áratugnum þegar þú varst táningur. Fyrst einbeittirðu þér að að hagnýtri list en tókst svo upp þráðinn þar sem þú hafðir hætt sem táningur.

Við höfum alltaf haft mjög gaman af djassi. Ég held nú samt að ég hafi aldrei verið mjög þróaður hlustandi en djass höfðar mjög sterkt til mín. Og fyrst þú minnist á djass þá kemur í hugann myndröð sem ég kalla Ljóshafið. Tvíræð merking. Hún byggist á breiðri vatnsstroku þar sem ég mála sama mótíf endurtekið í ótal litasamsetningum. Þetta var margra vikna ferli af spuna. Ég endaði á því að gera yfir fjögur hundruð myndir. Þessa myndröð keypti norska Statoil og notaði frummyndirnar sem boðskort þegar Vigdís vígði borpallinn Sleipni fyrir þá. Stundum teiknaði ég með vatni ofan í litinn. Alltaf sama strokan en engin mynd eins. Ég lærði mikið af þessu um mismunandi eðli lita.

Þú hélst sýningu í Gallerí Langbrók 1985. Hvenær kom næsta sýning og hvernig hélt þetta áfram?

Ári síðar, í Gallerí Borg 1986 og 1987, síðan hjá Svövu og Svölu í Nýhöfn í Hafnarstræti. Ég gaf sýningunum alltaf nöfn t.d. Stillur, Víddir, Hrif, Birta, Verund. Þá komu tvær stórar sýningar: Birta í Hafnarborg 1992 og Fjalladans 1994, sem var fyrsta einstaklingssýningin í Listasafni Kópavogs. Ég fór að mála miklu meira um og eftir 1994. Og eftir 2001 urðu myndirnar ekki aðeins afrakstur sumarferða heldur byrjaði ég að mála vetrarmyndir. Það finnst mér spennandi. Hvítur pappírinn og hvítur veturinn. Samspil sólar og skugga. Heitir og kaldir litir. Ég er komin út í meiri abstraksjónir. Samt vinn ég út frá mótífum. Esjan er drjúg uppspretta. Ég leik mér með hrynjandina í hlíðum Kistufellsins – slæ úr og í. Ég get verið að mála Lakagíga natúralistískt en verð allt í einu hundleið á því. Ég þarf áskorun, leita ögrunar, nýrra leiða. Spila með litinn og áferðina.

Eru ákveðnir staðir orðnir uppáhaldsstaðir þínir? Staðir sem þú málar aftur og aftur?

Já, fjöldinn allur, en nú heilla fjöllin í nágrenni Reykjavíkur, Esjan og Akrafjallið. Esjan er reyndar flöt og lítilfjörleg um miðjan dag – jafnvel í þrjá til fjóra tíma. En á morgnana og seinni partinn kallar hún á mig. Og Akrafjallið þykir mér einstaklega kvöldfagurt. Og taktfast. Kannski er ég orðin löt að keyra langt!

Reynirðu að ná ákveðnum hughrifum eða flæðir þetta?

Ég held að inni fyrir séu myndir sem vilji út. Túlkun upplifunar. Og athöfnin hleður mig. Formaleikurinn sem ég upplifði í abstraktinu er til staðar í náttúrunni og læðist stundum inn í myndirnar. Ég er stödd inni í gríðarmiklu þrívíðu myndverki sem Ísland er og ljósið er á stöðugri hreyfingu og skapar í sífellu nýjar myndir. Ég tek þátt í gleðinni.

Nú hefur verið bent á að upphafsmenn abstraktmyndlistar, Mondrian, Malewich og Kandinsky, hafi verið á kafi í guðspeki og litið á þessa tegund myndlistar sem uppljómun.

Þetta er eins konar hugleiðsla. Ég geri stundum myndir sem koma mér á óvart og ég hef líka átt daga þar sem mér finnst allt misheppnast. En ég get upplifað slíkar myndir sjálf síðar. Eitthvað nýtt hefur gerst sem ég sá ekki þegar ég málaði myndina og er jafnvel upphaf á nýju ferli.

Finnst þér þú vera að yfirgefa fígúratífan heim - fara á flug?

Undirvitundin flýgur. Ég var á ferð í Borgarfirði eystri í nokkra daga í senn árið 2002. Það var allt svo brjálæðislega flott en einhvern veginn langaði mig ekkert til að mála það. Á þriðja degi hafði mér ekki gengið neitt. Þá fór ég inn í bíl, dró gluggatjöldin fyrir og málaði Borgarfjörð eystri án þess að horfa á hann. Upplifunina skilurðu? Þessi hrif. Svo finnst mér merkilegt þegar maður er á ferð eftir vegum landsins hvað þeir liggja oft á sjónrænt flottum stöðum. Ég er búin að keyra oft fram hjá Hafnarfjalli og á Borgarnesbrúnni er viss punktur sem togar í mig. Ég hafði mig í að keyra niður á útskot og mála mynd þótt það væri stöðug umferð og rigningarsuddi. Myndin mín sem hafði kallað ótal sinnum komst á blað. Mér finnst ekki leiðinlegt að vinna fígúratíft og ég er ekkert að yfirgefa þann heim en áhrif hrynjandinnar toga.

Við tölum um þennan heim sem hinn svokallaða raunveruleika og hinn þar sem hrifin eru og uppljómunin. Þú dansar oft á þessum mörkum. Ertu aldrei smeyk við að taka flugið?

Í uppstreymi svífur fuglinn um á flugfjöðrum sínum. Beiti hann vængjunum flýgur hann víðar og hærra. Hugarró er mitt uppstreymi. Penslarnir flugfjaðrir. Vinnan vængir.

Guðmundur Oddur Magnússon,
prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands